top of page

Fréttatilkynning frá Brimbrettafélagi íslands

Brimbrettafélag Íslands vill vekja athygli á máli sínu er varðar landfyllingu í Þorlákshöfn, og þá sérstaklega varðandi forsendur og gögn sem notað hafa verið við ákvarðanatöku í málinu. 
 

Brimbrettafélagið staðfestir að Minnisblað Verkfræðistofunnar Portum, Rannsókn á brimbrettaöldu við Kúlu sem bæjarstjórn Ölfusar byggir ákvörðun sína á og treystir til að breyta aðalskipulagi sínu vegna landfyllingar á hafnarsvæði inniheldur rangar upplýsingar. Í Minnisblaðinu er m.a mynd til sönnunar að áhrifin frá landfyllingunni séu engin, sjá mynd 1. hér að neðan. Danska verkfræðistofan DHI group hefur bent á að landfyllingin er teiknuð inn á myndina eftir á og því tekur öldufarslíkanið ekki tillit til hennar eða frákast frá henni (“reflecting waves”). Myndbirtingin hefur því villandi tilgang.  

Screenshot 2024-11-24 at 10.31.02.png

Mynd 1. Mynd tekin úr Minnisblaði Verkfræðistofunnar Portum, Rannsókn á brimbrettaöldu við Kúlu

27. júní síðastliðinn ákvað bæjarstjórn Ölfusar að breyta aðalskipulagi Þorlákshafnar til þess að hægt væri að koma landfyllingu sunnan við Suðurvarabryggju í gegnum aðalskipulag. Í fundargerð (fundur 333) kemur fram að bæjarstjórn hefur farið gaumgæfilega yfir gögn frá bæði Verkfræðistofu Portum og danska verkfræðifyrirtækinu DHI group. Bæjarstjórn komst að þeirri niðurstöðu að Minnisblað Portum byggi á greinarbetri gögnum en skýrsla dönsku verkfræðistofunnar DHI. Í fundargerðinni kemur m.a fram:

 

„Eftir skoðun minnisblaðanna tveggja er það mat sveitarfélagsins að minnisblað Portum byggi á greinarbetri gögnum en minnisblað dönsku verkfræðistofunnar DHI.“ 

Nýlega birtist í skipulagsgát uppfært Minnisblað Verkfræðistofu Portum eftir að Skipulagsstofnun hafði krafið verkfræðistofuna Portum um að uppfæra Minnisblaðið og deila útreikningum og myndum sökum ófullnægjandi rökstuðnings í fyrra Minnisblaði. Eftir að uppfært Minnisblað varð aðgengilegt fékk Stjórn BBFÍ verkfræðistofuna DHI group til að yfirfara uppfærða Minnisblað Portum, einnig fundaði stjórn BBFÍ með Vegagerðinni þar sem útreikningar Portum voru fengnir. Við nánari skoðun kom eftirfarandi í ljós:

  1. Verkfræðistofan Portum „teiknaði“ landfyllinguna inn á myndir Vegagerðarinnar.​​
    Landfyllingin er ekki tekin með í útreikninga Vegagerðarinnar þar sem þeir voru útbúnir áður en umrædd landfyllingin kom til tals. Verkfræðistofan Portum „teiknaði“ því landfyllinguna inn á myndir Vegagerðarinnar með myndvinnsluforriti (sjá mynd 1. hér að ofan). Því er ómögulegt að áætla með vissu að landfyllingin mun ekki hafa áhrif á brimbrettaölduna (Aðalbrotið).
     

  2. Útreikningar og myndir í Minnisblaði Portum eru fengir frá Vegagerðinni og því er Minnisblaðið einungis túlkun Portum á gögnum Vegagerðarinnar.
    Vegagerðin staðfestir að svo sé og ritar í nýjustu athugasemd við deiluskipulagsbreytingu fyrir Hafnarsvæði H3 að stofnunin: “telji að enn hafi ekki verið gerð grein fyrir áhrifum landfyllingarinnar á öldu, sjólag og áhrif aðstæður til brimbrettaiðkunar á fullnægjandi hátt. Þar sem um óafturkræf áhrif er að ræða er mikilvægt að óvissu sé eytt um áhrif framkvæmdanna á öldu og sjólag”. – sjá viðhengi​
     

  3. Verkfræðistofan Portum áætlar að brimbrettaiðkendur brimi Aðalbrotið á öðrum stað en þeir í raun gera.
    Í Minnisblaðinu ritar Portum að aldan (Aðalbrotið) sem um ræðir, brotni “um 500 metrum frá landfyllingu” við staðarheitið “Kúlu”. Þetta er alrangt og í besta falli tilbúningur. Aðalbrotið brotnar mun nær landi en ritað er í Minnisblaði Portum (sjá mynd 2. hér að neðan). Túlkun Minnisblaðsins virðist byggja alfarið á loftmyndum og dýptarmælingum, en ekki raunverulegum aðstæðum eða útreikningum. 

     

​​

Screenshot 2024-11-24 at 10.49.19.png

Mynd 2. Staðsetning Kúlu á móti staðsetningu brimbrettasvæðis.

Minnisblað Portum getur því ekki dregið þá faglegu ályktun út frá útreikningnum að fyrirhuguð landfylling muni ekki hafa áhrif á Aðalbrotið. Minnisblað Portum er því ekkert annað en tilbúningur á kostnað sveitarfélagsins.

Brimbrettafélagið bendir á að vinnubrögð Portum eru með öllu óásættanleg í ljósi þess að um er að ræða óafturkræf áhrif á bestu brimbrettaöldu landsins. Umrædd landfylling mun að öllum líkindum útrýma brimbrettaíþróttinni hér á landi. Afstaða sveitarfélagsins getur ekki verið einkamál sveitarfélagsins þar sem hún hefur áhrif á hundruð iðkenda brimbretta samfélagsins á Íslandi.

bottom of page